Allt að geras!!!
Ingibjörg Snædal Guðmundsdóttir: Rb-Sr aldursákvörðun á gúlnum Mælifelli og öðrum súrum gosmyndunum á Snæfellsnesi. Meistaraprófsfyrirlestur við jarðvísindaskor (28.04.2008)
Ingibjörg Snædal Guðmundsdóttir flytur meistaraprófsfyrirlestur sem hún nefnir: Rb-Sr aldursákvörðun á gúlnum Mælifelli og öðrum súrum gosmyndunum á Snæfellsnesi í Öskju - náttúrufræðahús HÍ mánudaginn 28. apríl kl. 13:30.Í verkefninu er gerð tilraun með notkun á geislavirkri klofnun Rb í stöðugt Sr við aldursgreiningu á mjög ungu íslensku bergi. Hraungúllinn Mælifell á Snæfellsnesi varð fyrir valinu vegna hás Rb/Sr hlutfalls. Hann er að mestu úr alkalí rýólíti, en innan um rýólítið má finna alkalí basalt innlyksur. Samsetning þessa alkalí-basalts er hin sama og Kothrauns, sem rann í vestur frá Snæfellsjökli á Nútíma.
Feldspat dílar úr bergi Mælifells voru handtíndir og bæði styrkur og samsætuhlutföll Rb og Sr mæld með massagreini. Feldspat dílarnir úr rýólíthluta gúlsins eru kalífeldspöt sem hafa gjörólík samsætuhlutföll en grunnmassinn, og eru því að öllum líkindum framandsteindir í berginu. Uppruni feldspatanna í rýólíti Mælifells virðist vera frá innskotsbergi líku því sem finnst við Fróðá og í Axlarhyrnu en þeir falla á u.þ.b. 5 milljón ára jafnaldurslínu. Af þessum sökum var jafnaldurslína Mælifells aðeins dregin í gegnum feldspatlausann grunnmassan, sem gefur hámarksaldurinn 120 000 ár. Mælifell mun því hafa myndast á síðustu ísöld á svipaðan máta og súrt berg í Ljósufjöllum eða við hlutkristöllun á basalti líku því sem nú finnst sem dökkar innlyksur í ljósum gúlnum. Yngstu súru hraun Ljósufjalla hafa einnig verið aldursgreind með Rb-Sr aðferðinni og jafnaldurslína bergsýna (e. whole-rock isochron) gefur aldursbilið 140 - 420 þ. ár, sem samræmist ágætlega aldursgreiningum á sama bergi með Ar-Ar aðferð.
Niðurstöður þessa verkefnis sýna að Rb-Sr aldursgreiningaraðferðinni má beita með árangri á ungt, súrt berg og að samsetning framandsteinda afhjúpar flókna myndunarsögu súrs bergs á Snæfellsnesi.
Leiðbeinendur: Dr. Olgeir Sigmarsson og Dr. Sigurður Steinþórsson Prófdómari: Dr. Kristján Jónasson.
Fyrirlesturinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og eru allir sem áhuga hafa hvattir til að mæta.
Staður: Askja - náttúrufræðahús HÍ
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home