Jæja gott fólk. Ég er með eina þá verstu ritstíflu sem ég hef nokkurn tíma á ævinni fengið, nema auðvitað þegar ég skrifa á bloggið. Sennilega er það vegna þess að á blogginu þarf ég ekkert að geta heimilda og hér vitna ég bara í sjálfan mig (Helgi Páll Jónsson, 2003). Málið er að núna sit ég hér og kvelst yfir lokaskýrslunni í verkefninu mínu og veit ekkert hvað ég á að skrifa. Ég er sannfærður um það að hægra heilahvelið í mér sem venjulega ræður ríkjum yfir vinstra heilahvelinu, hefur gert samning við það vinstra og þau bæði hafa ákveðið að stöðva alla starfsemi í hausnum á mér í óákveðin tíma vegna hinna gífurlegu hita sem gengið hafa yfir hér að undanförnu. Ekki má kerfið ofhitna. Og svo er það auðvitað hinn kvalafulli prófskrekkur sem ég fæ yfirhöfuð aldrei, nema prófin heiti skelfilegum nöfnum eins og Efnafræði eða Eðlisfræði. Prófskrekkur hjá mér lýsir sér yfirleitt þannig að ég sit og stari út í loftið, get hvorki borðað né sofið. Kaffidrykkjan keyrir úr hófi fram og neglurnar á puttunum sem þó voru stuttar fyrir, hverfa eins dögg fyrir sólu. En svona er lífið og það þýðir ekkert að gráta Björn bónda og kenna árinni um þó báturinn stefni ekki í átt að ræðaranum.
Svo förum við bara að hittast á næstunni og minnumst orða tónskáldsins sem sagði "jarðfræðin kemur í gegnum lappirnar."
Holufyllingafélagið
Grjót er líka fólk !
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home