miðvikudagur, mars 31, 2004

Humm, land tréklossa, túlípana og vindmilla? Ég hélt að þetta væri aðalega land rauðra hverfa og löglegrar eitulyfjasölu, en hvað veit ég. Ég hef aldrei sótt heim þá flatlendinga er Niðurlönd byggja. Aftur á móti fóru pabbi og mamma til Hollands fyrir nokkrum árum og átti mamma í mestum vandræðum með að berja af pabba miðaldra samkynhneigða menn er voru að reyna við hann. Nei nei ég er að ýkja, þau töluðu aðalega um flott listasöfn.

Sögur þær er Helgi flytur um bindindi hér heima eru stórlega ýktar en satt er að félagskapur sá er kennir sig við útfellingar í bergi hefur ekki stundað mikla samneyslu á áfengi á þessu misseri. Hefur bjarndýrið úr Hafnarfirði aðeins einu sinni gist í sófanum hjá mér.

Hér er að sjálfsögðu allt að fara til fjandans eins og vananlega og allt útlit fyrir að skólagjöld verði kominn skóla vorn Universitatis Islandiae af ekki næsta haust þá haust 2005. En það er að sjálfsögðu allt í lagi því þá verðum við öll útskrifuðu og verðum kominn út á vinnumarkaðinn að selja vinnu okkar til hæstbjóðanda fyrir stórfé. Svo segir Þorgerður Katrín að minnsta kosti.

Nú er ég farinn að skrifa framsögu um hlutverk goðsagna í stríðum þeim er háð hafa verið í fyrrverandi Júgóslavíu, mjög áhugavert!

fimmtudagur, mars 25, 2004

Jæja, þetta bloggsvæði okkar er farið að ryðga ansi mikið og kannski tímabært að láta eitt stykki blogg vaða svona fyrir Ingibjörgu sem er stödd í landi tréklossa og túlípana um þessar mundir.

Kæra Ingibjörg
Margt hefur breyst á Íslandi síðan þú fórst burtu af landinu. Búið er að flytja allt jarðfræðifólk nauðungarflutningum í stórt og mikið hús í Vatnsmýrinni. Þetta hús hefur fengið nafnið Askja en hefði með réttu átt að heita gluggatjaldalausa Skrímslið í Vatnsmýrinni. Gamla jarðfræðihúsið er óðum að tæmast og bara rétt í morgunn var Siggi Steinþórs að henda fjórða árs verkefninu hans Steingríms J. Sigfússonar í ruslagáminn fyrir utan húsið. Hér hefur líka mikið verið að gerast í þjóðlífinu og Sverrir var t.d. í sjónvarpinu á dögunum þar sem hann mótmælti óprúttnum upptökum skólagjalda við HÍ, já rektor fékk að kenna á því! Sæmundur fróði, Gummi OPAL, Erla Perla og aumingja ég ætlum samkvæmt orðrómi sem birtist í DV á dögunum, ekki að útskrifast fyrr en í haust. Björninn er jafnóútreiknanlegur og oft áður þannig að ég veit ekki með hann. Ég veit ekki heldur með þig Ingibjörg, en þar sem þú ert stödd í vindmyllulandinu þá ætla ég að þú útskrifist bara líka þá. Hinir vitru öldungar Siggi og Dr. Reynisson ætla að útskrifast núna í vor en Fjalar mun síðan halda í víking til Aberdeen í haust (hann ætlar að verða ríkur olíujarðfræðitöffari). Veit ekki hvað Siggi er með á prjónunum í framhaldinu. Þetta er búin að vera lítil fylleríisönn enda allir svo bissí í vísindalegum þönkum og hef ég heyrt að sumir séu endanlega búnir að segja skilið við Bakkus gamla, þannig að holufyllingar hafa verið ósköp sundraðir þetta misserið. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Drífðu þig nú svo heim Ingibjörg, en eins og þú veist þá eru jöklarnir að bráðna og það fer hækkandi yfirborð heimshafanna og þá fer Holland bráðum á kaf. Svo eru holufyllingafélagar þínir líka bara farnir að sakna þín svo óskaplega mikið.

free hit counter